Námskeið / Vinnusálfræði

Vinnustofa um sálfélagslega áhættuþætti ... einkum eineltis- og samskiptavanda

Þrautreyndar aðferðir til inngripa og fyrirbyggjandi aðgerða á vinnustað

Vinnustofa fyrir leiðtoga á vinnustað


Mikilvægt er að stjórnendur öðlist trausta þekkingu og hæfni til að takast á við og leiða til lykta krefjandi eineltis- og samskiptavandamál er koma upp á vinnustaðnum.

Megináhersla vinnustofunnar er að færa leiðtogum í hendur öflugar aðferðir þekkingar og færni sem nýtast við úrvinnslu og málsmeðferð eineltis- og samskiptavandamála. Jafnframt þessu er fjallað um annan algengan áhættuþátt félagslegs aðbúnaðar, sem er streita og kulnun í starfi.

Auk ofangreinds er áherslan á orsakir eineltis innan skipulagsheilda (jarðveg eineltis, hvata og kveikjur); nauðsynlegar forsendur til greiningar eineltis á vinnustað; vinnuverndar- og stjórnsýslulög; ferli og framkvæmd sálfélagslegs áhættumats auk fyrirbyggjandi ráðstafanir og eftirfylgd mála. Mikill ávinningur, fyrir vinnslu mála, felst jafnframt í hagnýtri þekkingu á sálfræði samskipta og samtalstækni.

Vinnustofan er í þremur hlutum, þrjár klukkustundir hverju sinni. Annað fyrirkomulag kemur einnig til greina.

Hagnýtur ávinningur

  • Þekking á orsaka- og áhrifaþáttum eineltis- og samskiptavanda á vinnustað.
  • Færni og þekking til að takast á við eineltis- og samskiptavandamál sem upp koma á vinnustaðnum.
  • Hagnýt þekking á aðferðum sem nýtast við að greina og fjarlægja áhættuþætti í sálfélagslegu umhverfi (ferli og framkvæmd sálfélagslegs áhættumats).
  • Leiðtogar öðlast trausta þekkingu á sannprófuðum verkferlum og aðferðum sem lágmarkar líkur á mistökum við úrvinnslu mála.
  • Öruggt og heilsusamlegt sálfélagslegt vinnuumhverfi er dýrmætur ávinningur og arðvænleg fjárfesting.

Fyrir hverja


Námskeiðið er sniðið að þörfum allra stjórnenda og annarra sem hafa starfsmannamál á sinni könnu, til dæmis trúnaðarmanna og vinnuverndarfulltrúa á vinnustað.

Efnistök

Fyrirlestrar um efnisþætti námsins, einstaklings- og hópverkefni, verklegar æfingar, umræður í hópvinnu, æfingapróf, hlutverkaleikur og heimavinna. Þátttakendur skoða og deila reynslu sinni með öðrum.

Þátttakendur fá afrit af glærum (dreifildi) sem notaðar eru í kennslunni.

Kostnaður

Samkvæmt tilboði.

Umsjón

Umsjón með vinnustofunni er í höndum Marteins Steinars Jónsson, vinnusálfræðings og sérfræðings í klínískri sálfræði (www.uttekturlausn.is).

Á undanförnum tveimur áratugum hefur Úttekt og úrlausn sinnt vinnustöðum af öllum stærðum; opinberum stofnunum, fyrirtækjum, sveitarfélögum, samtökum og hagsmunafélög.
Verkefnin hafa verið af margvíslegum toga, úttekt á meintu einelti, greining og meðhöndlun ágreinings og samskiptavanda, 360 gráðu endurgjöf til stjórnenda og starfsmanna, úttekt á sálfélagslegra áhættuþáttum, sáttamiðlun, eflingu liðsheilda, stjórnendaþjálfun, handleiðslu og ráðgjöf, ráðgjöf og meðferð fyrir stjórnendur og starfsmenn, fyrirlestrar, námskeið og vinnustofur.

Úttekt og úrlausn hefur viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til að veita ráðgjöf um sálfélagslega áhættuþætti á vinnustöðum.