Greinar – vinnusálfræði

Góður „mórall" meiri afköst

”Atvinnurekendur eru í æ ríkari mæli að verða meðvitaðir um að andrúmsloftið eða „mórall“ á vinnustað skiptir miklu fyrir árangur.

good atmosphereRannsóknir sýna að afköst starfsmanna aukast og fólk er líklegra til að staldra lengur við á vinnustað þar sem almenn vellíðan og góðvild ríkir manna í milli. Ekki eru allir svo heppnir að geta skapað þannig andrúmsloft í sínu fyrirtæki en lausnin á vandanum þarf ekki endilega að vera flókin og til eru fagaðilar sem geta greint vandann og veitt góð ráð og handleiðslu um hvernig stuðla megi að bættum árangri. Marteinn Steinar Jónsson sálfræðingur er einn þeirra.

Marteinn Steinar er klínískur sálfræðingur sem hefur sérmenntað sig á sviði vinnustaða- og fyrirtækjasálfræði. Hann lærði í Bretlandi og vinnur út frá aðferðum sem felast í því að draga fram og rannsaka persónulega upplifun fólks á vandanum og eru upplýsingar greindar með tölfræðilegum aðferðum, þó án þess að sértækar og persónulegar upplýsingar glatist. Þetta hljómar flókið en Marteinn Steinar hefur meðal annars gert rannsókn þar sem sjónum er beint að áhrifum félagshæfni á árangur og líðan á vinnustað.

Velja alltaf hagkvæmasta kostinn

„Helstu vandamál sem upp koma á vinnustöðum tengjast samskiptum”, segir Marteinn Steinar. „Innan hvers fyrirtækis myndast ákveðin vinnustaðamenning og til verða óskrifaðar reglur um hvað á við í samskiptum.

Ef forsvarsmenn fyrirtækis vilja breyta áherslum í rekstri og stjórnun þess verða þeir að átta sig á að ef farið er af stað með breytingar án þess að áður sé grafist fyrir um hvort afleiðingarnar komi illa við starfsmenn, ógni hag þeirra með að snerta við málefnum sem skipta þá miklu, þá getur ávinningurinn orðið lítill. Ef við hins vegar skiljum persónulegar ástæður þess að starfsmenn setji sig upp á móti breytingunni getum við unnið að lausn.

Ef við tökum sem dæmi fyrirtæki þar sem þeir stjórnendur sem náð hafa góðum árangri hafa verið verðlaunaðir umfram aðra er ekki líklegt að þeir sjái sér hag í að gefa upplýsingar um hvað það er í stjórnunaraðferðum þeirra sem hefur skilað þeim áfram.

Í þessu fyrirtæki hefur ríkt samkeppnismenning og ef koma á samvinnumenningu geta hinar nýju áherslur gengið gegn mikilvægum sjónarmiðum og meginreglum, sem stjórnendur innan fyrirtækisins hafa haldið í heiðri. Stjórnendurnir eru ekki líklegir til að vilja veikja sjálfa sig með því að ræða aðferðir sínar opinskátt við aðra innan stjórnendahópsins. Af ofangreindum sökum munu þeir því frekar velja að standa á móti breytingum sem nýjar áherslur samvinnumenningar krefjast af þeim.

Ekki er víst að forsvarsmenn fyrirtækisins átti sig á hvers vegna stjórnendur taka ekki heilshugar þátt í breytingarferlinu. Það er ekki fyrr en við skiljum persónulegar ástæður þess að starfsmenn standa á móti breytingunum að lausnin verður augljós, nefnilega sú að breytingarnar virki ekki „ógnandi” og vinni gegn almennri skynjun starfsmanna á hvað er sanngjarnt og ásættanlegt.

Menn velja yfirleitt þann kostinn sem er skynsamlegri og betri fyrir þá sjálfa og í þessu tilfelli þarf að stuðla að því að hinar nýju áherslur samvinnustefnunnar séu í raun ávinningur fyrir alla, en ekki að menn og konur finnist þau tapa persónulega á þeirri viðleitni sinni að fræða, efla og styðja aðra innan fyrirtækisins”.

Skilningur, lykillinn að breytingu

Ef vandamál á vinnustöðum tengjast samskiptum fyrst og fremst, er þá nokkuð hægt að gera til að breyta því? Fólk er bara fólk ekki rétt?

„Mastersrannsókn mín snerist um að skoða áhrif félagshæfni (getunnar til að skilja sjónarhorn og viðbrögð annarra) í tengslum við skilvirkni vinnuhópa og voru niðurstöðurnar marktækar. Að því marki sem starfsmenn skilja hvernig aðrir hugsa geta þeir átt árangursríka samvinnu.

Nýlega kom út stór bresk rannsókn sem styður þessar niðurstöður. Þar er rætt um tilfinningagreind sem er það sama og félagshæfni og má segja að allt snúist um, í þessu sambandi, hversu „greindur” vinnustaður fólks er. Í mælingu í þessari rannsókn voru fjölmiðlafyrirtæki efst á blaði en smásölu- og lögfræðifyrirtækin komu illa út.

 

 

Grein í tímaritinu vikunni, ,Góður mórall, meiri afköst'
(9. tbl. 65. árg. 4. mars 2003).

Góð tilfinningagreind er tvíþætt. Annars vegar góð geta og hæfni til að takast á við eigin tilfinningaviðbrögð og hugsanir og hins vegar að bregðast við viðbrögðum og tilfinningum annarra af innsæi á yfirvegaðan og nærgætin hátt. Báðir þessir hæfnisþættir eru nauðsynlegir til að geta átt góð samskipti við aðra.

Hluttekning skiptir miklu máli, þá sérstaklega þegar stjórnendur eiga í hlut því þeir gefa oft tóninn, leggja línurnar um hvernig fólki komi til með að líða á vinnustaðnum. Ef stjórnendur hafa ekki hæfni í mannlegum samskiptum leiðir það iðulega til streitu og vanlíðunar meðal starfsmanna.

Það er þó ekki nóg að stjórnendur einir hafi góða félagslega hæfni, það sama gildir um almenna starfsmenn. Starfshópar þurfa að ná saman og menn verða að geta hlustað vel hvor á annan og stuðla að gagnkvæmum skilningi. Traust er mikilvægt og að fólk geti opnað sig vel um mikilvæg málefni. Með því móti er vinátta ræktuð sem aftur á móti hamlar gegn því að veggir tortryggni og úlfúðar rísi milli samstarfsmanna.

Fyrrgreind bresk rannsókn sýndi enn fremur tengsl á milli góðra samskipta starfsmanna og hversu oft fólk skiptir um vinnustað. Það var einnig athyglisvert að greinilega var samband á milli lélegra félagstengsla starfsmanna og kulnunar í starfi.

Eru konur konum verstar?

Nú hefur það oft heyrst sagt að á kvennavinnustöðum séu samskipti mun verri en á karlavinnustöðum. Er eitthvað til í því?

„Já, það er talað um kynjamismun í þessu sambandi og maður hefur heyrt það sagt að konur séu konum verstar. Ég veit ekki til þess að neinar skýrar rannsóknir hafi verið gerðar á þessu, enda væri erfitt að mæla slíkt því konur eru jú ekki líklegar til að vilja viðurkenna illkvittni í garð kynsystra sinna. Hugsanlega eru konur þó líklegri til að gagnrýna hver aðra fremur en karlar konur.

Konur eru ef til vill einnig í meiri samkeppni hver við aðra og ekki má gleyma því að þær þurfa oft að fórna meiru og leggja meira á sig en karlar til að komast áfram á vinnumarkaði. Hugsanlega er samkeppni milli þeirra grimmilegri en milli karla. Það er ekki hægt að benda á neinar „patentlausn” á slíkum vanda en hvert tilfelli hefur sína persónulegu sögu sem rannsaka þarf ef taka skal á málum”.

Aukin afköst á notalegum vinnustað

Við höfum komið inn á hvað einkennir „draumavinnustaðinn” og allir vilja áreiðanlega mæta skilningi á vinnustað. Þá er ekki úr vegi að spyrja hver sé ávinningur atvinnurekenda af því að fara eftir þessum ráðum og reyna að bæta samskiptin og andrúmsloftið á vinnustaðnum?

„Ef góður andi ríkir á vinnustað eru meiri líkur á að fólk skipti ekki um vinnu. Rannsóknir sýna að það vill vera á stað þar sem því líður vel jafnvel þótt launin séu lægri. Fólk metur vellíðan á vinnustaðnum meira en góð laun. Það er einnig minni líkur á að menn brenni út í starfi þar sem góður andi er og einnig hefur komið fram að menn afkasta meiru við slíkar aðstæður.

Það skiptir miklu máli að þeir sem vinna langan vinnudag hafi afdrep þar sem þeir geta hvílt sig milli tarna, að góð aðstaða sé innan vinnustaða þar sem menn geta spjallað og tengst. Ef fólk tekur ekki pásur frá vinnunni eru meiri líkur á að það missi áhugann og brenni út. Einnig er mikilvægt að fólki sé leyft að gera vinnuumhverfi sitt persónulegt.

Ef fólk fær að hafa persónulega muni í kringum sig bætir það líðan og skapar vellíðan, sem rannsóknir hafa sýnt að ýtir undir afköst. Að hafa aðgang að te eða kaffi skiptir líka máli því það stuðlar að góðri félagslegri nánd milli fólks. Með öðrum orðum, allir þessir þættir valda því að fólk afkastar meiru og skilar betra starfi”.

Sálfræðistofurekstur fyrir almenning

Marteinn Steinar Jónsson hefur frá 1996 rekið sálfræðiþjónustu fyrir einstaklinga, pör og fjölskyldur. Hann segir að það komi fólki oft verulega á óvart þegar það uppgötvar hvaða ástæður liggja raunverulega til grundvallar þeim vanda sem það á við að glíma (t.d. þunglyndi eða fælni) og leitar til sálfræðings með.

„Í mörgum tilfellum er um dulda áhrifa- og orsakaþætti að ræða sem viðhalda vandanum. Það er ljóst að þessir áhrifaþættir eru oft fremur ómeðvitaðir en meðvitaðir og ástæða þeirra einkenna sem kvartað er undan, t.d. þunglyndi, fælni og kvíða.

Með öðrum orðum, einkennin spretta fram sem eðlileg viðbrögð við undirliggjandi orsökum og án þess að fólk átti sig alltaf á orsakatengslunum. Innsæi og skilningur á þessu sálræna ferli er hins vegar ævinlega fyrsta skerfið í áttina að finna leiðir til úrbóta”.