Greinar – vinnusálfræði

Ánægðir starfsmenn auka samkeppnishæfni

smileVellíðan starfsmanna er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækja og forsenda árangurs og samkeppnishæfni, að mati Marteins Steinars Jónssonar sálfræðings. Hann rekur sérfræðiþjónustuna Úttekt og úrlausn þar sem aðferðum klínískrar sálfræði er beitt til greiningar og úrlausna á vandamálum á sviði mannlega þáttarins innan fyrirtækja.

Marteinn hefur starfað sem sálfræðingur í Bretlandi og á Íslandi en hann lauk meistaraprófi í klínískri sálfræði frá Lundúnaháskóla árið 1994 og hefur sérfræðiviðurkenningu breska sálfræðingafélagsins. Hann byggir starfsemi sína á sálfræðikenningu sem nefnist ,Personal Construct Psychology' og gengur út á að skilja einstaklinga út frá þeirra sjónarhorni en gefa sér ekki fyrirfram hugmyndir um fólk.

„Lykillinn að lausn verkefna felst í nákvæmri athugun persónulegrar upplifunar þar sem vísindalegum aðferðum er beitt til lausnar”, segir Marteinn.

Hann hefur beitt aðferðum kenningarinnar við greiningu og meðferð á einstaklingum og fjölskyldum og hefur nýlega stofna fyrirtækið Úttekt og úrlausn þar sem þessum aðferðum er beitt innan fyrirtækja.

Fyrirtækið hefur náið samstarf við breskan sérfræðing, dr. Fay Fransella, áður dósent í klínískri sálfræði við Lundúnaháskóla. Hún er kunn fyrir fræðistörf sín á sviði 'Personal Construct' sálarfræði og er framkvæmdastjóri og stofnandi 'The Centre for Personal Construct Psychology'.

Dr. Fransella lagaði aðferðarfræði þessarar greinar sálfræði að aðstæðum í fyrirtækjum og hefur á undanförnum tveimur áratugum beitt þeim í þágu yfir 50 stórfyrirtækja, þ.á.m. British Airways, British Telecom og Ford í Evrópu.

Sérsniðnir spurningalistar

„Úttekt og úrlausn sérhæfir sig í að afhjúpa áhrifaþættina og koma breytingum til leiðar sem efla árangur og samkeppnishæfni”, segir Marteinn.

 

 

Að hans mati er ekki eins heppilegt að nota staðlað form eins og spurningalista eða námskeið, ef brjóta skal vandamál til mergjar, heldur er mikilvægt að sníða greiningartækið og aðgerðir í framhaldinu að aðstæðum og þörfum viðkomandi fyrirtækis og starfsmanna þess.

„Ef búið er að ákveða fyrirfram hvaða spurningar eiga við er oft ekki hægt að komast að því hvað er að. Afraksturinn verður því yfirleitt á of almennum nótum til að koma nægjanlega vel að gagni”.

Hann undirstrikar að Úttekt og úrlausn hefji ferlið þar sem einstaklingurinn er staddur og tekur öll framvinda mið af því sem fram kemur. „Gögnin verða þannig á tungumáli þátttakenda og koma úr innra umhverfi fyrirtækisins, sem hámarkar líkur á réttmætum vinnubrögðum”, segir Marteinn og nefnir sem dæmi um verkefni: Úttekt á líðan starfsmanna og skilvirkni innan starfsheilda, lausn ágreinings, breytingar á fyrirtækjamenningu og eflingu samskipta.

Marteinn segir að við greiningu og úrlausn vandamála sé mikilvægt að draga fram og afhjúpa dulda orsaka- og áhrifaþætti, en aðferðarfræði Úttektar og úrlausnar einkennist af nákvæmri athugun á persónulegri upplifun til að tryggja sem best réttmæti og árangur.

Eftir að fyrir liggja óskir um viðfangsefnið er markhópur rannsóknarinnar afmarkaður. Viðtöl eru síðan tekin við þátttakendur til að draga fram persónuleg viðhorf og skoðanir hvers og eins. Út frá þeim er nokkurs konar eyðublað mótað, sem þátttakendur fylla út.

Tölfræðileg úrvinnsla (þáttagreining) leiðir svo niðurstöðu í ljós, sem varðar veginn fram á við. Með niðurstöðum úr viðtölum við valið úrtak starfsmanna fyrirtækis er hægt að draga upp nokkuð skýra mynd af eðli vandans og þeirri menningu sem ríkir innan fyrirtækisins, hvernig menn skynja sjálfa sig, yfirmenn sína og hópinn, að sögn Marteins.

„Til að mynda sést glögglega að um vandamál af einhverju tagi er að ræða þegar skynjun yfirmanna og undirmanna er alvarlega á skjön. Úrræði til lausnar markast af því hvaða áhrifaþættir liggja að baki, samkvæmt greiningu”, segir Marteinn. Dæmi um úrlausn er að veita yfirmönnum þjálfun í að hlusta eftir því hvernig undirmönnum líður.

Neikvæð samskipti og ósveigjanleiki hamla skilvirkni meðal starfsmanna sem aftur á móti getur skilað sér í verri afkomu og árangir fyrirtækisins”, segir Marteinn að lokum.

 Grein í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 20. apríl 2000