Greinar - almenn sálfræði

Ferli fyrirgefningarinnar

Fyrirgefning Guðs er hornsteinn kristinnar kenningar. En fyrirgefning er einnig mikilvæg í mannlegum samskiptum.

Kristin trú gefur mikilvæga innsýn á lífið sem og aðstæður fólks og skiptir það miklu, ekki síst þegar trúað fólk leitar til mín. Þekking og reynsla á sviði trúarinnar er ennfremur mikilvæg viðbót við sálfræðimenntun mína. Auk þess að lesa sálfræði les ég bækur um guðfræðileg málefni. Báðar þessar greinar, sálfræði og guðfræði fjalla um viðfangsefni mannlegrar tilveru, þau grundvallargildi sem við öll þurfum að takast á við í lífinu.

Náðarhugtakið er til dæmis mikilvægt bæði í guðfræðilegum sem og sálfræðilegum skilningi, við þurfum að hafa náð fyrir fólki. Í trúnni er talað um náðina og hún er mikilvægt hugtak sem gengur út á að þú fyrirgefur sjálfum þér þó að þú eigir það ekki skilið. Í raun og veru skipar trúarþroskinn stóran sess, að mínu mati, fyrir þroskaferil mannsins. Í trúnni er komið inn á mikilvægi þess að við hættum að streitast við að vinna okkur inn velþóknun annarra og að Guð hafi tekið okkur að sér án skilyrða.

Þannig er ljóst að þáttur trúarinnar er mikilvægur í þeirri nálgun og mannskilningi sem ég vil hafa að leiðarljósi í lífinu. Virðing fyrir einstaklingnum þarf að vera í fyrirrúmi og innan sálfræðinnar skiptir það einnig meginmáli. Í meðferðarvinnu ganga hlutirnir því í raun og veru ekki út á ráðgjöf heldur það að hjálpa fólki að átta sig á tilfinningum sínum og, í kjölfarið, að finna eigin svör við vandanum.

Hvað er fyrirgefning?

Fyrirgefning held ég að sé annað hvort kraftaverk eða ferill, eða þá hvort tveggja. Maður hefur heyrt talað um hvernig fólk hafi megnað að fyrirgefa í aðstæðum sem virtust vera ófyrirgefanlegar. Til dæmis þegar fjölskyldan er myrt eða í aðstæðum þar sem annar hjónabandsaðilinn yfirgefur hjónabandið vegna þess að einhver annar eða önnur var komin í spilið. Við aðstæður sem þessar hafa mikilvæg grunngildi tryggðar og trúnaðar verið troðin ofan í svaðið. Slíkur verknaður veldur djúpum særindum, allt hefur verið sett úr skorðum og vandamálin og erfiðleikarnir hrúgast upp. Við getum með sanni sagt að margt það sem gerist sé í raun ófyrirgefanlegt. Og þess vegna tel ég að fyrirgefning geti aldrei átt sér stað nema réttlæti eigi sér stað, sem undanfari. Við þekkjum söguna um Jósef í Biblíunni. hann fyrirgaf ekki bræðrum sínum fyrr en hann hafði hlotið upphefð og var orðin háttsettur í Egyptalandi, hann var búinn að fá réttlæti. Fyrirgefning er úrvinnsluferli sem fara þarf í gegnum. Þegar brotið er á manni verður afleiðingin sálræn meiðsl, særindi, depurð, kvíði og vanlíðan sem þarf að horfast í augu við og sigrast á, þetta er ferli. Fyrirgefningin er gjöf, sá sem fyrirgefur gefur þá gjöf í styrkleika en ekki í veikleika, sem niðurbrotið og sigrað fórnarlamb ranglætis. Ef fólk reynir að fyrirgefa án þess að eiga „tilfinningalega innistæðu” fyrir fyrirgefningunni, þá verður alls ekki um fyrirgefningu að ræða, því hver getur gefið það sem hann á ekki?

Getur þú útskýrt betur þetta með réttlætið?

Í bók sinni „Forgiving the Unforgivable” ræðir Beverly Flanigan niðurstöður mikillar rannsóknar á ferli fyrirgefningarinnar. Viðtöl voru tekin við hundrað manns sem allir áttu það sammerkt að hafa orðið fórnarlömb þess sem við getum talið ófyrirgefanlegt, t.d. að börn þeirra voru misnotuð af nánum ættingja eða svikin með grófum hætti, o.s.frv. Beverly lagði sig eftir því að rannsaka hvernig þolendur höfðu unnið sig frá sársaukanum og hvort það ferli sem kom í ljós var á einhvern hátt hliðstætt frá einum einstaklingi til annars. Eins og við var að búast kom fram að um tiltekið ferli var að ræða. Við skulum núna líta á þessi skref eða ferli fyrirgefningarinnar auk þess að athuga nánar hvað í raun og veru einkennir sálræn meiðsl, afleiðingu þess að brotið er á manni þannig að lífið gengur ekki lengur upp.

Alvarlegt brot á fólki setur allt úr skorðum, heimurinn hrynur. Sálræn meiðsl valda nístandi sársauka og særindum sem snerta innsta kjarna sjálfsmyndarinnar og því ekki raunhæft að ætla að þolendur geti ýtt þessari líðan til hliðar og fyrirgefið. Það er búið að troða á siðferðislegu gildin sem talin voru sjálfgefin, verknaðurinn er oft framinn af þeim sem hafa persónuleg náin tengsl, það gerir allt miklu verra. Við þurfum að skilja að upplifun fóks er sértæk og breytileg frá einum einstakling til annars. Þegar fólk verður fyrir sálrænum meiðslum missir það stjórn á aðstæðunum, missir fótanna í tilfinningalegum skilningi og getan til að treysta verður lítil sem engin. Þegar búið er að „rústa” getunni til að treysta hefur þolandinn ekkert lengur til að byggja á hvað varðar það að fyrirgefa. Fyrirgefningarferlið miðar að enduruppbyggingu. Sjálfstraustið er horfið, trú á réttlæti og sanngirni sundurmoluð og við þurfum þess vegna að endurskilgreina og endurheimta þau mikilvægu grunngildi réttlætis og heiðarleika sem höfðum áður verið sjálfgefin. Þessar afleiðingar eru í raun og veru eitt það versta sem hlýst af sálrænum meiðslum, búið er að eyðileggja getu til að treysta að nýju.

Hvenær kemur þetta fram?

Um leið og verknaðurinn hefur verið framinn. Ég nefndi áðan dæmi þar sem hjónabandssamningurinn er rofinn með því að annar aðili hjónabandsins yfirgefur hinn vegna þess að hann eða hún segist vilja „fylgja hjarta sínu” og „láta ástina ráða”, en þannig útskýring er oft gefin. Í upphafi hjónabandsins var gengið út frá því að báðir aðilar myndu standa saman í blíðu og stríðu en nú er hinn skilinn eftir með skuldirnar, ábyrgðina á börnum og ósjaldan fer fjárhagurinn í rúst því ekki verður lengurt kleift að mæta fjárskuldbindinum. Afleiðingin er sú að illmögulegt virðist vera að geta fyrirgefið.

Hver eru þá fyrstu skrefi?

Þá erum við komin að spurningunni um hvað þarf til, til að geta fyrirgefið. Eins og áður segir þá erum við að tala um ferli. Samkvæmt athugunum Beverly Flanigan er fyrsta skrefið að skilgreina eðli og umfang þeirra sálrænu meiðsla og erfiðleika sem þú hefur lent í. Þetta er eins og að fara til læknis, þú þarft að geta áttað þig á því hvar meinið er og til þess sendir læknirinn þig e.t.v. í alls konar rannsóknir. Það þarf að greina og „kortleggja” einkennin. Við þurfum líka að átta okkur á því hvað tilheyrir okkur, að greina eigin sálræn meiðsl frá sálrænum meiðslum annarra. Við verðum að muna að við getum ekki fyrirgefið fyrir hönd einhvers annars.

Við þurfum einnig að átta okkur á því hvort sá eða sú sem braut á okkur er ábyrg(ur). Ennfremur þurfum við að draga þann sem braut á okkur til ábyrgðar og hér kemur inn þáttur ásökunar. Ég held að réttlæti verði aldrei nema við getum ásakað. Sumir kristnir menn vilja ekki horfast í augu við þessa staðreynd vegna sektarkenndar, þ.e. vegna þess að þá eru þeir ekki lengur „góðir”. Það að mega ekki ásaka þann sem braut á okkur er í raun og veru alls ekki raunhæft. Í fagnaðarerindinu er engin fyrirgefning án réttlætis. Einhver þurfti að taka á sig brotin. Það kostaði að fyrirgefa og það er í raun og veru ekki biblíulegt að trúa því að þér sé ætlað að fyrirgefa án þess að mega vera trúr eigin tilfinningum, að fara í gegnum ferli þar sem gerandinn er ásakaður. Ef það er brotið á okkur þá verðum við að segja sannleikann. Í Jóhannesarguðsspjalli 8. kafla 32. versi kemur einmitt fram að sannleikurinn geri okkur frjáls. Í Rómverjabréfinu 14. kafla 17. versi kemur ennfremur fram að Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður. En ef réttlæti kemst ekki á verður ófriður og vanlíðan, þannig að forsendan fyrir friði er réttlæti.

Við verðum þá að taka réttlætið alvarlega?

Já, ef einhver brýtur á okkur þá er það ranglæti og við verðum að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Við getum kallað það synd, að missa marks og valda skaða. Við þurfum að draga fólk til ábyrgðar. Línurnar fara að skýrast þegar við getum dregið fólk til ábyrgðar og rofið þennan vítahring ruglingslegra tilfinninga og sjálfsásakana. Stundum álítur fólk, sem t.d. lendir í kynferðislegri misnotkun, sig vera ábyrgt að einhverju leyti fyrir því sem gerðist. Það þarf að rjúfa þennan vítahring svo fólk átti sig á því að það er ekki ábyrgt, sérstaklega er þetta áberandi þegar börn lenda í þessu, þau fara að trúa því að þau séu ábyrg. Það hefur verið logið að þeim, þeim mútað með sælgæti og kannski hafa vaknað einhverjar notalegar kenndir (t.d. líkamsviðbrögð) meðan á misnotkun stendur og þá fara þau að telja sér trú um að þau eigi einhvern þátt í verknaðinum. Við þurfum að fara í nákvæma rannsókn á hver beri sökina, beina athyglinni frá þolanda yfir á geranda og draga þann sem verknaðinn framdi til ábyrgðar. Þegar þessum áfanga er náð getum við sagt: „Þú braust á mér og berð alla ábyrgð. Ég gerði ekkert til að verðskulda þetta”. Það er ekkert rangt við að ásaka. Eftir að við höfum stigið.

 

 

 

 

 

 

 

þetta skref er loksins komið að því að jafna metin, en hvernig förum við að því? Við þurfum að lyfta þolandanum upp úr stöðu fórnarlambs, þannig að hann eða hún sé ekki lengur í stöðu þess undirokaða en gerandinn í stöðu þess sem hefur brotið á okkur (sá sem hefur sigrað)

Ég sagði áðan að fyrirgefningin væri aðeins möguleg á grundvelli réttlætis og styrkleika. Það þarf að hjálpa fólki að stíga upp úr niðurlægingu ósigurs og veikleika og endurheimta það sem var tekið frá því. Eftir að við höfum endurheimt það sem var tekið frá okkur höfum við tilfinningalega efni á að veita öðrum gjöf fyrirgefningarinnar. Á grundvelli réttlætis komumst við upp úr fórnarlambshlutverkinu. Aðeins þá má segja að gerandinn hafi misst yfirburði sína, við höfum hlotið réttlæti sem afleiðingu þess að við höfum jafnað metin.

En eigum við ekki að fyrirgefa án skilyrða?

forgivenessFyrirgefning án skilyrða er einmitt það sem einkennir gjöfina, gjöfin er gefin af frjálsum vilja og án skilyrða, en þó ekki fyrr en slíkt er mögulegt, eftir að ferli fyrirgefningarinnar hefur átt sér stað. Ég er að sjálfsögðu fullkomlega sammála því að við verðum að fyrirgefa til að leysa okkur sjálf frá þeirri vanlíðan sem tengist því að vera föst í biturleika, en við þurfum að gera það í takt við raunveruleikann, í takt við það sem er rétt. Ef við erum að fyrirgefa án þess að hafa farið í gegnum missinn, án þess að hafa syrgt missinn, án þess að hafa ásakað þann sem braut á okkur, þá erum við að bæla niður heilbrigðar og réttmætar tilfinningar. Hvað höfum við upp úr því? Við höfum ekkert upp úr því annað en dýpri meiðsl, það að mega ekki vera í takt við raunveruleikann. Það er ekki í takt við raunveruleikann að vera með einhverjar blekkingar í gangi og bæla niður tilfinningar sínar. Með þessu lendum við í andstöðu við okkur sjálf, sem er ávísun á taugaveiklun og ýmis geðræn vandamál.

Hvað ef viðkomandi játar ekki að hafa gert á hlut okkar?

Við erum ekki háð því. Vegna þess að við getum ásakað án þess að hinn játi. Sá eða sú sem hefur brotið á okkur hefur ekki vald yfir okkur sökum þess að við höfum sjálfsákvörðunarrétt. Við vitum hver sannleikurinn er en við þurfum á því að halda að aðrir sem í kringum okkur eru trúi okkur.

Og við getum fyrirgefið þó að hann játi ekki?

Já, já. Við þurfum að umbreyta þeirri ímynd sem við höfum af fólki. Við þurfum að fara í gegnum það ferli sem tengist þvi að jafna metin.Við segjum allt í lagi, hann játar ekki, en við þurfum að átta okkur á því, af hverju hann játar ekki. Kannski sjáum við að ef hann játar muni hann verða fyrir gjaldþroti tilfinningalega, hann hefur ekki tilfinningalega efni á að viðurkenna. Það er hans vandamál. Við erum ekki ábyrg fyrir því. Hitler játaði aldrei neitt og hann myrti milljónir. Við erum ekki háð því hvernig hann var. Í lífinu þurfum við oft að takast á við sorg, t.d. að syrgja glataða æsku eða dauða einhvers og það styrkir persónuleikann að fara í gegnum þjáninguna. Þekktur sálfræðingur sagði eitt sinn: „Taugaveiklun er alltaf staðgengill réttmætrar þjáningar”. Með þessu átti hann við, að ef við viljum ekki horfast í augu við og takast á við þjáninguna og sorgina þá megnum við ekki að yfirstíga erfiðleika. Afleiðing afneitunar verður því taugaveiklun. Ef við viljum lifa í afneitun þá verðum við taugaveikluð. Þegar við sjáum það sem við viljum ekki sjá leiðir það til taugatitrings og vanlíðunar af því að við erum í hliðrun og flótta undan þeim vanda sem við lokum augunum fyrir.

Er alltaf hægt að fyrirgefa?

Já, það er hægt að gera það, en það er auðvitað misjafnlega erfitt. Það eru til hlutir sem geta verið gífurlega erfiðir, segjum t.d. þegar einhver nákominn deyr vegna læknamistaka, er hægt að fyrirgefa slíkt? Ég held að það sé raunverulega hægt að læra að lifa með því en sorgarvinnan getur verið misjafnlega erfið og eiginlega þarf í sumum tilfellum kraftaverk til að geta fyrirgefið. En við skulum ekki líta framhjá því að mörgum hefur tekist að fyrirgefa það sem virðist vera ófyrirgefanlegt.

Fyrirgefningarferlið er í eðli sínu þroskaferli. Þeir sem fara í gegnum mikla og erfiða reynslu öðlast dýpri þekkingu og innsæi af þjáningunni og öðlast meiri hæfni til að hjálpa öðrum. Þessi reynsla gerir þá hæfari og sterkari.

Hvað með fólk sem finnst það hafa gert ófyrirgefanlega hluti og ekki eiga fyrirgefningu skilið?

Við þurfum að skoða sektarkenndina sem er í gangi. Bandaríski sálfræðingurinn George Kelly sagði eitt sinn að laun sektarinnar væru dauði sjálfsmyndar. Þú getur ekki lifað ef þú ert full af sektarkennd. Það kremur sjálfið. Það er sagt að laun syndarinnar sé dauði. Hver er munurinn á sekt og synd? Ég held að hann sé ekki mikill, hvort tveggja er náskylt fyrirbæri og við þurfum að skoða forsendur sektarkenndarinnar og athuga hvort hún byggi ekki á einhverju sem er hægt að uppræta. Stundum byggir hún á misskilningi. Sá sem er fullur af sektarkennd þarf að fara í gegnum sáttargjörð gagnvart sjálfum sér og öðrum. En stundum eru þetta hlutir sem liggja djúpt og þurfa sálfræðimeðferðar við til að finna dýpri einkenni sem viðhalda sektarkenndinni. Maður þarf stundum að ásaka og refsa fólki sem brýtur á manni, það er ferill sem þú ferð í gegnum, að tjá reiðina og særindin. Það eru margar aðferðir notaðar. Í bæn er hægt að fela mál í hendur Guðs en eins og ég segi enn og aftur, það verður engin fyrirgefning án réttlætis.

Þarftu ekki eitthvað meira?

Lokaáfanginn er ný sjálfsmynd, það er að fara í gegnum ferli fyrirgefningarinnar breytir okkur. Það breytir okkur á þann hátt að þegar við höfum fyrirgefið hefst ný byrjun og við erum ekki lengur föst í að horfa til baka, heldur getum við horft fram á veginn. Það sem var brotið á okkur hélt okkur í einhvers konar kreppu. Það er þroskaferill að geta fyrirgefið, það er sigur. Það að fá réttlæti styrkir sjálfsmyndina og eflir ónæmiskerfi sálarinnar. Við verðum ekki lengur eins viðkvæm fyrir áföllum, við erum búin að fara í gegnum erfiðleika og það styrkir okkur. Við næsta áfall er maður næstum eins og bólusettur fyrir erfiðleikum. Sá sem hefur farið í gegnum erfiðleika er miklu sterkari. Ef maður fer ekki í gegnum erfiðleikana brjóta þeir mann niður. Of ef þú vilt ekki horfast í augu við hlutina verður þú taugaveiklaður. Þegar þú sérð það sem þú vilt ekki sjá og bregðast við, kippistu við í vanlíðan. Þá ertu á flótta frá tilfinningum sem þú vilt ekki komast í snertingu við.

Þeir eiga betra með að setja sig í spor annarra sem hafa farið í gegnum hliðstæða erfiðleika og takast á við hliðstæða hluti. Við getum sagt að fyrirgefning sé alltaf náðargjöf. Við höfum endurheimt réttlæti, tilfinningalegan heilsu og styrkleika og við höfum þá unnið mikinn sigur. Ef við gerum þetta ekki og veljum ekki að fyrirgefa þá erum við með óuppgerða hluti sem geta verið eins og sálfræðilegt krabbamein. Biturleiki eyðileggur okkur, hann er eins og krabbamein.Við verðum að muna að sá sem getur ekki fyrirgefið hefur raunhæfar ástæður til að geta það ekki. Við sjáum kannski ekki þessar ástæður en þær eru til staðar og það skiptir máli að við séum ekki að dæma fólk heldur að reyna að skilja það.

Það er þrennt sem fyrirgefningin hefur í för með sér: Að við leysum gerandann undan sök, við leysum okkur sjálf undan að burðast með vandann og slítum þau bönd sem njörva okkur við þann sem braut gegn okkur og við lítum fram á veginn í staðinn fyrir að dvelja við fortíðina og það er mikill sigur. Fyrirgefningin er fyrst og fremst það sem við gerum fyrir okkur sjálf, ekki fyrir aðra.

Hvað með óuppgerða hluti í lífi fólks?

Það er nauðsynlegt fyrir okkur og þau lífsgæði sem við viljum búa við, að hafa ekki óuppgerða hluti í lífi okkar. Við búum við skert lífsgæði ef við getum ekki fyrirgefið. Svo einfalt er það. Ef sársauki er fastur innra með okkur er ákveðinn hluti af lífi okkar í myrkri. Ástand sem þetta getur leitt til taugaveiklunar. Sá sem fyrirgefur ekki verður taugaveiklaður í þeim skilningi að viðkomandi ræður ekki við og vill ekki horfast í augu við ákveðna hluti vegna þess að slíkt veldur vanlíðan. Það að vilja ekki fyrirgefa er hliðrunarferli, sem byggir kannski líka á því að fólk hefur tilfinningalega ekki efni á því. En það þarf að fara í gegnum þetta á þeim hraða sem það ræður við.

Er munur á fyrirgefningu kristinna manna og þeirra sem ekki eru kristnir?

Ekki held ég það í grundvallaratriðum. Í eðli sínu held ég að það sé ekkert mikill munur ef fólk hefur fyrirgefið af hjarta. Margir halda að eftir að hafa tekið skref trúar, afturhvarfi, sé hreinlega búið að hreinsa út öll vandamál. Þetta er alger misskilningur, slíkt gerist ekki. Við þurfum að vinna með okkar mál, lífið er þroskaferli. Við þurfum fyrst og fremst að vera heiðarleg. Fyrirgefningarvinnan er ferli sem þú ferð í gegnum og þú mátt ekki skjóta þér undan ábyrgð.
Heimildir

Kristín Bjarnadóttir er viðmælandi Marteins Steinars. Hún er kennari, BA í guðfræði og starfsmaður Kristniboðssambandsins.

Grein í tímaritinu Bjarma, 'Ferill fyrirgefningarinnar - kraftaverk eða ferill (1. tbl. 98. árg., mars 2004).