Greinar – vinnusálfræði

Atvinnumissir og félagslegur stuðningur

Félagslegur stuðningur skiptir öllu máli þegar fólk stendur frammi fyrir atvinnumissi, enda mikið högg fyrir sjálfsmynd margra að missa vinnuna. Þetta segir Marteinn Steinar Jónsson, fyrirtækja- og vinnusálfræðingur. Bendir hann á að flestum reynist erfiðast að höndla óvissuna sem felst í atvinnumissi og kvíðann sem fylgir því að vita ekki hvernig framtíðin líti út eða hvernig eigi að láta enda ná saman fjárhagslega.

Mikilvægi félagslegs stuðnings

„Á slíkum stundum er mikilvægt að hafa aðgang að einhverjum sem er tilbúinn til að hlusta og sýna hluttekningu sína,” segir Marteinn og tekur fram að góður hlustandi sé jafnvel mikilvægari en einhver sem sé boðinn og búinn að veita góð ráð.

Regluleg hreyfing er „vítamín" fyrir sálina

Að sögn Marteins er ekki síður mikilvægt að atvinnuleitendur haldi í rútínu daglegs lífs og fari t.d. ekki að vaka fram eftir nóttu. Þannig sé betra að vakna snemma og hafa eitthvað fyrir stafni, t.d. að vinna sjálfboðastörf eða sækja námskeið í stað þess að sitja yfir engu heimavið. Mælir hann einnig með því að fólk stundi reglulega hreyfingu. „Enda er hreyfing eitt besta vítamínið fyrir sálina”, segir Marteinn og bendir á að endorfín hjálpi líkamanum t.d. að slaka betur á.

Neikvæðni stendur í vegi fyrir skapandi hugsun

Jákvæðni er annað lykilorð að sögn Marteins. ”Ef við leyfum okkur að hugsa neikvætt eyðileggur það getu okkar til þess að sjá möguleika og það brýtur okkur niður. Neikvæðar hugsanir skapa neikvæðar tilfinningar sem svo aftur lokar á getu okkar til að leita skapandi lausna og lamar framtakssemi okkar. Þess vegna er svo gífurlega mikilvægt að horfa á hið jákvæða í stöðunni og reyna að sjá hvað eigi eftir að verða betra", segir Marteinn og bendir á að þó að atvinnumissir sé flestum erfiður megi ekki horfa framhjá því að hann geti veitt fólki tækifæri til þess að fara aftur í nám eða skipta um vinnuvettvang.

Tekur Marteinn fram að mikilvægt sé við þessar aðstæður að hugsa til lengri tíma og horfa ekki bara til næstu vikna og mánaða, heldur jafnvel eitt til tvö ár fram í tímann. Bendir hann á að það sé alltaf ljós í myrkrinu þó að maður komi kannski ekki alltaf auga á það strax.

 

Grein í Morgunblaðinu, miðvikudaginn 14. janúar, 2009